Færsluflokkur: Spaugilegt
1.12.2008 | 16:37
Æskuár Baldurs Brjánssonar töframanns
Úr bókinni TÖFRUM LÍKAST - Saga Baldurs Brjánssonar töframanns
Árið 1954 var haldið brúðkaup Bjarkar, systur Brjáns, og Guðmundar Þórhallssonar bókbindara. Sama sumar komu þau í Rauðumýrina og Guðmundur settist hjá bræðrunum ungu og fór að spjalla við þá. Hann tók krónupening úr vasa sínum og sýndi strákunum hann. Því næst setti hann peninginn í hina höndina og blés á hana og svo þegar hann opnaði lófann, hægt og rólega, fingur fyrir fingur, var peningurinn horfinn. Ingi hélt áfram að leika sér, enda aðeins þriggja ára gamall, en Balli starði opinmynntur á tóma hönd Guðmundar og sagði ekki orð. Því næst færði Guðmundur tómu höndina aftur fyrir hnakka Balla og skyndilega fann hann peninginn detta ofan í hálsmálið sitt aftanvert úr tómum lófanum.
Þegar Baldur rifjaði þetta upp síðastliðinn vetur, horfði hann hugsandi út í loftið og sagði svo allt í einu:
Ég man ennþá tilfinninguna þegar peningurinn rann niður eftir bakinu, undir náttfötunum. Heyrðu! Ég var í bláum náttfötum! Hugsa sér, ég var í bláum náttfötum!
Svo skellihló hann, því honum fannst ótrúlegt afrek að muna svona smáatriði sem gerðist fyrir tæpum 54 árum síðan.
Þetta gerðist þegar Balli var aðeins 6 ára gamall og varð til að kveikja hina óslökkvandi þrá hans og löngun í að læra töfrabrögð. Hann segist hafa hugsað bæði oft og lengi um þetta atvik. Það varð ekki aftur snúið, hann hafði greinilega fengið töfrabakteríuna. Hann var líka óspar á að segja vinunum frá þessum fræga töframanni sem væri kominn í fjölskylduna, Guðmundi, töframanninum frá Reykjavík, sem gat látið peninga hverfa og birtast að vild. Það var ekki ofsögum sagt að krakkarnir öfunduðu Balla að eiga svona stórkostlegan frænda. Það þótti honum heldur ekki leiðinlegt. Hann reyndi líka sjálfur, oft og lengi að láta peninginn hverfa, eins og Guðmundur frændi hans, en það liðu mörg ár þar til hann lærði handbragðið. Guðmundur kjaftaði ekki frá leyndarmálinu.
- - -
Eitt af því sem við kepptum í var holustikk, rifjar Gísli [H. Sigurðsson vinur Balla] upp. Þá var grafin smá hola, ekki djúp, og þangað hentum við smápeningum úr vissri fjarlægð. Sá sem náði að láta sinn pening lenda næst miðjunni vann allan pottinn. Þetta voru mest einseyringar og fimmeyringar, en safnaðist stundum saman og oft fór hýran í þessa keppni.
Já það var mjög vinsælt á þessum árum, segir Baldur. Ég man að einu sinni var ég kominn með fullan poka af einseyringum og ég fór með hann út í garð og gróf hann á milli blómanna hjá mömmu. Daginn eftir fór ég svo með nokkra af yngri krökkunum út í garð og sýndi þeim sjóræningjakort sem ég hafði teiknað, en sagði þeim að ég hefði fundið það. Ég labbaði svo þvers og kruss um garðinn eftir kortinu, með krakkahópinn á eftir mér, og endaði á milli blómanna þar sem X-ið var á kortinu. Þar gróf ég niður og viti menn, haldið þið ekki að ég hafi grafið upp fullan poka af peningum. Þetta þótti krökkunum stórmerkilegt og ég hækkaði gríðarlega í metum hjá þeim við þetta.
Bragi, frændi Balla, var sýningarmaður í Borgarbíói á Akureyri á árunum 1955-1960. Þá fóru krakkar yfirleitt alltaf í bíó á hverjum sunnudegi og var Balli þar engin undantekning. Það skipti engu máli hvaða mynd var sýnd, bíó var bíó. Baldur minnist vel myndar sem heitir Risinn, Giant frá 1956, sem var síðasta kvikmyndin sem James Dean lék í. Í einu atriði myndarinnar var Dean með reipi, hélt í annan enda þess og hristi það snöggt. Með sveiflunni tókst honum að hnýta hnút á bandið. Balli heillaðist af þessu einfalda, en snjalla bragði og minnist þess að hafa setið tímunum saman, dag eftir dag og viku eftir viku, við að ná réttu sveiflunni, þar til honum tókst það. Síðan hefur hann alltaf getað hnýtt hnút á band með því að hrista það á réttan hátt og á tímabili gat hann einnig hnýtt hnút á bindi með því að halda í annan endann á því og hrista það rétt.
Brjánn, pabbi Balla, hljóp stundum í skarðið fyrir Braga bróður sinn í bíóinu, segir Gísli. Þá var oft gaman, þegar hann leyfði hann okkur Balla að koma með sér niður eftir. Þá fórum við með honum inn í sýningarklefann og fylgdumst með því þegar hann undirbjó sýninguna, setti filmurnar á sýningarvélarnar, þræddi og setti svo í gang. Þetta voru óhemju stórar og flottar græjur. Hann þurfti svo að kíkja út um eitt gægjugatið á tjaldið, þegar kom að skiptingum á milli véla.
- - -
Þessir tímar þarna í sýningarsalnum voru spennandi, segir Gísli. Ég man hvað hinum krökkunum fannst mikið til þess koma að við Balli hefðum fengið að sjá bannaðar myndir í bíóinu, þótt við þyrftum að kíkja í gegnum gægjugatið. En þetta hafði nú líka miður góðar afleiðingar fyrir mig, því eftir að ég sá einhverja hryllingsmyndina dreymdi mig svo illa, fékk martraðir margar nætur í röð, að ég ákvað í kjölfarið að sleppa öllum bönnuðum myndum. Ég held samt að Balli hafi haldið uppteknum hætti.
20.11.2008 | 13:11
Bók um Baldur Brjánsson töframann
Bókaútgáfan Hólar hefur gefið út bókina Töfrum líkast - Saga Baldurs Brjánssonar töframanns. Þetta er fyrsta ævisaga íslensks töframanns sem kemur út og spannar hún ævi Baldurs frá fæðingu árið 1948 og fram til nóvember 2008.
Í bókinni segir Baldur frá litríku lífshlaupi sínu á einlægan hátt og dregur ekkert undan. Í henni er að finna fjölmargar frásagnir sem aldrei hafa heyrst fyrr og ýmis leyndarmál afhjúpuð - hvað varð til dæmis um hvítu dúfuna?
Gunnar Kr. Sigurjónsson skrifaði bókina, sem er 352 bls. með 32 myndasíðum.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.9.2008 | 02:31
Liljulimra
Við lúsuga gaurinn hún Lilja,
loksins nú tókst henn' að skilja.
Hann skild' ekki það,
hve þráði hún bað.
Nú hún ilmar frá hvirfli til ilja.
3.9.2008 | 11:18
Bjarnalimra
Hafið þið heyrt um hann Bjarna,
háðfuglinn metorðagjarna?
Á vörubíl vinnur,
þú vísast hann finnur,
við snögga gerð snjóflóðavarna.
2.9.2008 | 21:58
Frissalimra
Ég frétti af piltinum Frissa,
sem fékk hana Önnu að kyssa.
Er lengst nið'rí lungu,
hún laumaði tungu
varð hann alveg gapandi hissa.
31.8.2008 | 01:37
Ólalimra
Ég heyrði að Húsvíski-Óli,
hefði víst dottið á hjóli
og finni nú til,
í tánum og il
og æpi og grenji og góli.
30.8.2008 | 14:12
Ingulimra
Hún á afmæli í dag hún Inga,
óperusöngkonan slynga.
Hún vill enga pakka,
en víst mun hún þakka,
fyrir dýrmæta demantshringa.
19.8.2008 | 14:12
Bílalimra
Hann Jón átti bíl sem að bilaði.
Svo bílnum hann fljótlega skilaði.
En keypti svo nikku,
með kantskyggni þykku
og sat bara spældur og spilaði.
21.7.2008 | 18:14
Setja takmarkanir á Stöð 2, takk!
Ég, sem áskrifandi að Stöð 2, óska hér með eftir að settar verði takmarkanir á auglýsingaflóði því sem dynur yfir okkur. Aftur og aftur fer dagskráin úr skorðum vegna auglýsingaflóðs og kornið sem fyllir mælinn er tvímælalaust auglýsingar inni í miðju framhaldsþáttum og myndum. Það er með öllu óþolandi að áskriftarsjónvarp þurfi að vera með slíkar eyðileggingar á þáttum sínum. Ef þættir eru vinsælir, geta fullborgandi áskrifendur átt von á jafnvel tveimur auglýsingahléum sem eyðileggja áhorfið og stemmninguna.
Látum vera að nefna Skjá einn. Það er fullt af góðum þáttum þar, en þar eiga auglýsingar einmitt rétt á sér, því áhorfið er ókeypis. Stöð 2 hefur orðið græðginni að bráð og ætti ekki að leyfast að rjúfa jafnvel stutta þætti, ekki nema hálftíma, með auglýsingum.
Vilja takmarkanir á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.7.2008 | 05:52
Ömmulimra
Hún var ákveðin þessi amma,
sem unglinga var að skamma.
Hún tók þá til bæna,
er búð vildu ræna
og lamdi með kústi á kjamma
Ræningjunum sópað út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Færsluflokkar
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Fjármál
- Fjölmiðlar
- Formúla 1
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Ljóð
- Löggæsla
- Mannréttindi
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Tónlist
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Viðskipti og fjármál