Leita í fréttum mbl.is

Æskuár Baldurs Brjánssonar töframanns

Baldur tveggja ára gamallÚr bókinni „TÖFRUM LÍKAST - Saga Baldurs Brjánssonar töframanns“

Árið 1954 var haldið brúðkaup Bjarkar, systur Brjáns, og Guð­mundar Þórhallssonar bókbindara. Sama sumar komu þau í Rauðumýrina og Guðmundur settist hjá bræðrunum ungu og fór að spjalla við þá. Hann tók krónupening úr vasa sínum og sýndi strákunum hann. Því næst setti hann pen­inginn í hina höndina og blés á hana – og svo þegar hann opnaði lófann, hægt og rólega, fingur fyrir fingur, var peningurinn horfinn. Ingi hélt áfram að leika sér, enda að­eins þriggja ára gamall, en Balli starði opinmynntur á tóma hönd Guðmundar og sagði ekki orð. Því næst færði Guð­­mundur tómu höndina aftur fyrir hnakka Balla og skyndi­­lega fann hann peninginn detta ofan í hálsmálið sitt aft­­an­vert úr tómum lófanum.
Þegar Baldur rifjaði þetta upp síðastliðinn vetur, horfði hann hugsandi út í loftið og sagði svo allt í einu:
„Ég man ennþá tilfinninguna þegar peningurinn rann nið­ur eftir bakinu, undir náttfötunum. Heyrðu! Ég var í bláum nátt­fötum! Hugsa sér, ég var í bláum náttfötum!“
Svo skellihló hann, því honum fannst ótrúlegt afrek að muna svona smáatriði sem gerðist fyrir tæpum 54 árum síð­an.
Þetta gerðist þegar Balli var aðeins 6 ára gamall og varð til að kveikja hina óslökkvandi þrá hans og löngun í að læra töfra­brögð. Hann segist hafa hugsað bæði oft og lengi um þetta atvik. Það varð ekki aftur snúið, hann hafði greinilega feng­ið töfrabakteríuna. Hann var líka óspar á að segja vin­unum frá þessum fræga töframanni sem væri kominn í fjölskylduna, Guðmundi, töframanninum frá Reykjavík, sem gat látið peninga hverfa og birtast að vild. Það var ekki ofsögum sagt að krakkarnir öfunduðu Balla að eiga svona stórkostlegan frænda. Það þótti honum heldur ekki leið­inlegt. Hann reyndi líka sjálfur, oft og lengi að láta pen­ing­inn hverfa, eins og Guðmundur frændi hans, en það liðu mörg ár þar til hann lærði handbragðið. Guðmundur kjaft­aði ekki frá leyndarmálinu.

- - - 

Baldur og Júlli bróðir hans„Eitt af því sem við kepptum í var holustikk,“ rifjar Gísli [H. Sigurðsson vinur Balla] upp. „Þá var grafin smá hola, ekki djúp, og þangað hentum við smápeningum úr vissri fjarlægð. Sá sem náði að láta sinn pen­ing lenda næst miðjunni vann allan pottinn. Þetta voru mest einseyringar og fimmeyringar, en safnaðist stundum sam­an og oft fór hýran í þessa keppni.“
„Já það var mjög vinsælt á þessum árum,“ segir Baldur. „Ég man að einu sinni var ég kominn með fullan poka af eins­eyringum og ég fór með hann út í garð og gróf hann á milli blómanna hjá mömmu. Daginn eftir fór ég svo með nokkra af yngri krökkunum út í garð og sýndi þeim sjó­ræn­ingja­kort sem ég hafði teiknað, en sagði þeim að ég hefði fund­ið það. Ég labbaði svo þvers og kruss um garðinn eftir kort­inu, með krakkahópinn á eftir mér, og endaði á milli blóm­anna þar sem X-ið var á kortinu. Þar gróf ég niður og viti menn, haldið þið ekki að ég hafi grafið upp fullan poka af peningum. Þetta þótti krökkunum stórmerkilegt og ég hækk­aði gríðarlega í metum hjá þeim við þetta.“

Bragi, frændi Balla, var sýningarmaður í Borgarbíói á Ak­ureyri á árunum 1955-1960. Þá fóru krakkar yfirleitt allt­af í bíó á hverjum sunnudegi og var Balli þar engin und­an­tekn­ing. Það skipti engu máli hvaða mynd var sýnd, bíó var bíó. Baldur minnist vel myndar sem heitir Risinn, Giant frá 1956, sem var síðasta kvikmyndin sem James Dean lék í. Í einu atriði myndarinnar var Dean með reipi, hélt í annan enda þess og hristi það snöggt. Með sveiflunni tókst honum að hnýta hnút á bandið. Balli heillaðist af þessu einfalda, en snjalla bragði og minnist þess að hafa setið tímunum saman, dag eftir dag og viku eftir viku, við að ná réttu sveiflunni, þar til honum tókst það. Síðan hefur hann alltaf getað hnýtt hnút á band með því að hrista það á réttan hátt og á tímabili gat hann einnig hnýtt hnút á bindi með því að halda í annan end­ann á því og hrista það rétt.
„Brjánn, pabbi Balla, hljóp stundum í skarðið fyrir Braga bróð­ur sinn í bíóinu,“ segir Gísli. Þá var oft gaman, þegar hann leyfði hann okkur Balla að koma með sér niður eftir. Þá fór­um við með honum inn í sýningarklefann og fylgdumst með því þegar hann undirbjó sýninguna, setti filmurnar á sýningarvélarnar, þræddi og setti svo í gang. Þetta voru óhemju stórar og flottar græjur. Hann þurfti svo að kíkja út um eitt gægjugatið á tjaldið, þegar kom að skiptingum á milli véla.“
- - -
„Þessir tímar þarna í sýningarsalnum voru spennandi,“ seg­ir Gísli. „Ég man hvað hinum krökkunum fannst mikið til þess koma að við Balli hefðum fengið að sjá bannaðar mynd­ir í bíóinu, þótt við þyrftum að kíkja í gegnum gægjugatið. En þetta hafði nú líka miður góðar afleiðingar fyrir mig, því eft­ir að ég sá einhverja hryllingsmyndina dreymdi mig svo illa, fékk martraðir margar nætur í röð, að ég ákvað í kjöl­farið að sleppa öllum bönnuðum myndum. Ég held samt að Balli hafi haldið uppteknum hætti.“
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Kr.

Gunnar Kr. býr í Kópavogi. Það er gott að búa í Kópavogi. Þriggja drengja faðir og áhugamaður um mannlegt atferli, tónlist, kveðskap og töfrabrögð.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband