Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Limra

Yfir fréttunum drottnar oft drunginn,
svo dæmalaust alvöruþrunginn.
En er þett' einhver frétt,
jafnvel þó það sé rétt,
að pilturinn raki á sér punginn?

mbl.is Daglegur rakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nóatún svindlar á neytendum

sitelogoUm daginn vantaði mig m.a. dós af grænum baunum og gulrótum. Ég fór í Nóatún í Hamraborg og sá einmitt það sem mig vantaði. Bonduelle-dósirnar með áðurnefndu innihaldi voru meira að segja með 20% afslætti á kassa, en þær voru verðmerktar á 139,- kr. 20% afsláttur, frábært! Ég tók meira að segja tvær dósir, aðra til að geyma til seinni tíma.

En þá varð mér litið á næstu hillu fyrir ofan. Þar voru nákvæmlega eins dósir, sama innihald, sami framleiðandi, en engin afsláttarmiði. En þar kostuðu dósirnar 129,- kr. skv. hillumerkingu.
Með öðrum orðum, þá eru dósirnar hækkaðar upp um 10 krónur, til að geta gefið meiri afslátt og blekkja fólk. Þetta er svo siðlaust hjá forsvarsmönnum Nóatúns að það hálfa væri nóg!

Fyrir nokkrum árum sá ég í sömu verslun, verðmerkingu á bökuðum baunum frá Heinz. Dósin kostaði 29,- krónur, en svo var líka hægt að kaupa fjórar í pakkningu, undir slagorðinu: Sparaðu! Pakkningin kostaði aftur á móti 120,- krónur, fjórum krónum meira en að kaupa fjórar dósir í lausu. Svona eru neytendur plataðir endalaust. Það er líka öruggara að fylgjast vel með því að verðmerkingar á hillu séu ekki lægri en kassaverðið. Allt of oft kemur fyrir að muni á þessu tvennu, hæsti munur sem ég man eftir á einstakri vörku, er kattasandur sem var verðmerktur 450,- kr. í hillu, en átti svo að svína upp í 995,- á kassanum. Ég sagði nei takk og fékk leiðréttingu, en get ímyndað mér að fullt af fólki hafi ekki veitt þessu athygli.

Verum á verði í Nóatúni og reyndar alls staðar þar sem við verslum! 


Limra

Nú tek ég það rólega í Thailandi,
hvar tóbak fólk er ekki svælandi.
Því bannað að reykja
og rettum í kveikja,
er kaupir þér drykk, soldið kælandi.

Það er semsagt búið að banna reykingar á öllum veitingastöðum og börum í landinu. Nú er þriggja mánaða aðlögunartími, en að honum loknum verður hægt að sekta þá sem reykja um 4.000 kr. og staði, sem leyfa reykingar óátalið, um 40.000 kr. 


Fátæklegt orðaval

Mér finnst orðaval fréttamanns heldur fátæklegt þegar þörf er á að tala um að flugvél lendi í vinhviðu í lendingu, í stað þess að hún hefði fengið á sig vindhviðu. 

Þau lentu í vindhviðu í lendingu,
og lentu í vanda.
En lentu samt ekki að endingu,
orð skulu standa.

 


mbl.is Lá við flugslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólínulimra Þorvarðardóttur

Ólína Þorvarðardóttir skrifar á blogsíðu sinni að hún hafi áhyggjur af framtíð íslenskunnar.

Verður íslenska brátt ónothæf í vísindasamfélaginu á Íslandi? Ýmsir eru uggandi um framtíð íslenskunnar, telja jafnvel að hún sé að verða undir sem nothæft tungumál í vísindum og fræðum. Ýmsar blikur eru á lofti ...

Við ættum að hlusta á Ólinu!
Á íslensku beita skal gólinu.
Því málið að missa,
yrði mikilvæg skyssa

og bölvað að gríp' oss í bólinu.

 


Limrur

Dæmalaust falleg er Díana
og dólgarnir alls ekki flýj'ana.
Þeir hugsa um eitt,
sem hún getur veitt
og það fer svona ferlega í'ana.

Um daginn tók Kiddi af Kára mynd,
hvar kappinn leit út eins og Bára Hind.
Svo til þess að grínast
og talsvert að sýnast,
þeir smellt'enn'á sýningu í Smáralind.

Hann Skúli er skipstjóri á Fífunni
og skopast að efnahagsdýfunni.
Því frekar en fiska,
hann fær sér oft diska,
á útsölu - oftast í Skífunni.


Limra

Mikilvægt mannsins er starf
og margt nú að ræða oft þarf.
En undarlegt pínu,
er að áliti mínu,
þegar alvöruleikskóli hvarf.


mbl.is Kópavogsbær tekur við rekstri leikskólans Hvarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Limrur

Brjáluð af reiði varð brúðurin,
er birtist einn helvítis trúðurinn.
Hún tók hann á taugum,
með trylling í augum
og barði hann beint á lúðurinn.

Eins og Páll löngu mér lofaði,
er létti í hans kolli og rofaði.
(Skelfileg glíma,
er glíman að ríma.)
En hann svaf ekki neitt, heldur „sofaði“.

Um lækniskraft lyfja hann efaðist,
Lárus, er dóttir hans kvefaðist.
En keypti samt eðal-
kvefpestarmeðal
og hóstinn víst samstundis sefaðist.


Limra

Ef ökumaður var ölvaður,
þá áfengisdjöfullinn bölvaður,
keyrði í á
og eftir varð þá,
bíllinn þar - blautur og mölvaður.

mbl.is Ók út í Elliðaá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Limra

Ég hef gantast við Gísla Rúnar,
sem finnst gaman að hvísla snúnar,
limrur og gátur,
sem lúmskt vekja hlátur.
Hann er langt frá að sýsla við fúnar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Gunnar Kr.

Gunnar Kr. býr í Kópavogi. Það er gott að búa í Kópavogi. Þriggja drengja faðir og áhugamaður um mannlegt atferli, tónlist, kveðskap og töfrabrögð.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband