Leita í fréttum mbl.is

Nýir kassar hjá Nóatúni

Vegna þess hvar ég vinn og hvar ég á heima, fer ég langoftast í Nóatún í Hamraborg eða Furugrund, þegar ég kaupi í matinn á leiðinni heim. Nú er búið að uppfæra alla búðarkassana hjá þessum verslunum og ég er allt annað en ánægður með þær framkvæmdir.
Nú er ekki lengur hægt að sjá hvað viðkomandi vara kostar, þegar henni er rennt yfir strikamerkjalesarann. Af hverju ekki? Er ekki skjár fyrir kúnnann, sem skv. landslögum á að vera til staðar við sérhverja sjóðvél, eins og það heitir á fínu máli? Jú, jú. Það er skjár fyrir kúnnann, en þeim skjá er komið fyrir á bakvið tímarit, súkkulaði og tyggjó, sem búið er að raða eins og frímerkjum í frímerkjabók, fyrir ofan færibandið. Þetta gengur svo langt sums staðar að það er ekki hægt að sjá grey kassabarnið fyrr en maður stendur beint fyrir framan það.
Svo dingla tyggjópokarnir og fleira yfir færibandinu og ég hef nokkrum sinnum séð mjólkurfernu, eða aðra vöru, ýta einum eða fleiri tyggjópokum fram af höldunni og detta á færibandið.
En það er lágmarkskurteisi að viðskiptavinurinn fái að sjá verð hverrar vöru um leið og henni er rennt í gegn, því allt of oft lendir fólk í því að taka vöru sem er verðmerkt á hillu mun lægra en verðið sem stimplast á strimilinn við búðarkassann. Það er of seint að gera eitthvað þegar heim er komið. Ég keypti kattasand í gær, sem kostaði 496 kr. á hillumerkingunni, en 998 kr. á kassanum. Ég tók eftir þessu á strimlinum (staldraði við því mér fannst þetta heldur dýrt sem ég hafði keypt) og þá kom þessi rúml. 500 kr. verðmunur í ljós og ég fékk 502 kr. endurgreiddar hjá verslunarstjóra.
En... verðskjár á að vera á hverjum kassa, sem snýr að viðskiptavininum, skv. lögum. Athugið það, Nóatúnsstarfsmenn!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Gunnar Kr.

Gunnar Kr. býr í Kópavogi. Það er gott að búa í Kópavogi. Þriggja drengja faðir og áhugamaður um mannlegt atferli, tónlist, kveðskap og töfrabrögð.

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband